Ferill 969. máls. Ferill 970. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2109  —  969. og 970. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020, sbr. lög nr. 104/2020, og
frumvarp til laga um breytingu á lögum um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997.


Frá 3. minni hluta fjárlaganefndar.


    Ráðherra hefur lagt fram þau tvö frumvörp sem hér eru til umfjöllunar í því skyni að veita ríkisábyrgð á lánalínu til Icelandair Group hf. Þessi ríkisábyrgð hefur það að markmiði að liðka fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækis í einkarekstri. Undir eðlilegum kringumstæðum á ríkið að halda sig frá rekstri fyrirtækja á samkeppnismarkaði en þegar fyrirtæki sinna kerfislega mikilvægri þjónustu getur það varðað almannahagsmuni að tryggja áframhaldandi rekstur þess. Icelandair sinnir óumdeilanlega kerfislega mikilvægum samgöngum, þ.e. alþjóðaflugi til og frá landinu. Þegar áhætta er á gjaldþroti félagsins þá er það hlutverk ríkisins að tryggja að flugsamgöngur raskist ekki.
    Ríkisstjórnin hefur með frumvörpum þessum leitað heimildar til að veita Icelandair Group hf. sjálfskuldarábyrgð á lánum sem geta numið allt að 108 millj. bandaríkjadala eða sem jafngildir 90% af 120 millj. bandaríkjadala lánalínum til félagsins. Í stað þess að nýta gildandi lög um ríkisábyrgðir hyggst ríkisstjórnin leita sérstakrar heimildar í fjáraukalögum. Þau rök eru færð fyrir undanþágunni að skilyrði laga um ríkisábyrgðir henti ekki í þessu tilviki. Það verður að teljast óheppilegt að ríkisstjórnin þurfi í hverju tilvikinu á fætur öðru að víkja frá gildandi lögum til að ná markmiðum sínum. Eflaust er það svo að margir þessara lagabálka eru komnir til ára sinna og henta illa í aðstæðum sem þessum. Það er hins vegar á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna að tryggja að lögin í landinu séu sniðin að nútímaaðstæðum. Ef lög um ríkisábyrgðir eru til að mynda svo úrelt að þurfi að sneiða hjá þeim verður að spyrja hvers vegna ekki hafi verið gerðar úrbætur á því. Það er með öllu ótækt að Alþingi þurfi ítrekað að veita undanþágur frá gildandi rétti þar sem meiri hlutinn hefur ekki unnið að nauðsynlegum úrbótum laganna.
    Stefnt er að því að veð verði tekin í vörumerkjum, bókunarkerfum og lendingarheimildum Icelandair. Ljóst er að þau veð standa ekki undir hugsanlegum skuldbindingum félagsins fari allt á versta veg. Þá er auk þess talsverð óvissa um fjárverðmæti lendingarheimildanna, enda eru þær háðar ýmsum skilyrðum sem geta hæglega komið í veg fyrir að þær gangi kaupum og sölum. Ríkisendurskoðun benti á það í umsögn sinni að það væri afar ósennilegt að þær eignir sem settar eru að veði stæðu undir kröfum sem gætu numið allt að 15 milljörðum kr. Þá er félagið verulega skuldsett og óvíst er hvaða sæti ríkið skipar í röð kröfuhafa, verði félagið gjaldþrota. Það er því talsverð fjárhagsleg áhætta undir fyrir ríkissjóð verði sjálfskuldarábyrgðin veitt. Þá hefði 3. minni hluti kosið að ríkissjóður hefði getað eignast hlutafé í félaginu í hlutfalli við nýtingu ríkisábyrgðarinnar hefði til hennar komið.
    Aðstoð ríkisins til einkafyrirtækis í samkeppnisrekstri má ekki ganga lengra en nauðsynlegt er til að tryggja kerfislega mikilvæga hagsmuni. Hér vandast málin. Icelandair Group hf. er móðurfélag ýmissa fyrirtækja í margvíslegum rekstri. Á vegum þess er ekki aðeins alþjóðlegur flugrekstur, heldur einnig flugafgreiðsla, innanlandsflug, ferðaþjónusta og hótelrekstur. Það er ekki hægt að færa rök fyrir því að aðrir þættir í starfsemi Icelandair Group en millilandaflug Icelandair séu kerfislega mikilvægir. Icelandair er óumdeilt eina íslenska starfandi flugfélagið sem sinnir flugi til og frá landinu. Í öðrum verkefnum fyrirtækisins er virk samkeppni við innlenda aðila. Það verður því að tryggja með lögum að sú ábyrgð sem ríkið veitir sé takmörkuð við Icelandair og einungis til að tryggja áframhaldandi flugsamgöngur til og frá landinu.
    Samkeppniseftirlitið ásamt innlendum samkeppnisaðilum hafa varað við því að ríkisaðstoð við samsteypuna í heild raski samkeppnisstöðu á markaði. Engu að síður er útlit fyrir að engar kröfur verði gerðar í fjáraukaheimildinni um að lánalínur sem sjálfskuldarábyrgðin nær til verði einungis nýttar í þágu alþjóðlegs flugreksturs Icelandair. Það er langt frá því að vera fullnægjandi að setja fram skilyrði í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar sem hvergi sér stað í lögunum sjálfum um ríkisábyrgðina. Alþingi sem löggjafi á að afmarka betur fjáraukaheimildina sjálfa til að tryggja að lánalínur með ríkisábyrgð verði ekki nýttar til samkeppni á innlendum markaði. Alþingi á ekki að veita opna heimild af þessu tagi. Það er okkur í lófa lagið að skilyrða ábyrgðina þannig að þær lánalínur sem hún tryggi verði aðeins nýttar í þágu alþjóðlegs flugreksturs Icelandair.
    Ríkisstjórnin lætur ekki bíða eftir sér þegar vandi steðjar að risafyrirtæki á markaði. Það væri óskandi að hún sýndi sams konar áhuga gagnvart vaxandi fátækt í landinu, en hún hefur ítrekað hafnað tillögum Flokks fólksins um að auka aðstoð við fátæka í samfélaginu. Hér birtist okkur kristaltært forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Fjármagnseigendur og fyrirtæki fá forgang. Fátækir mega bíða.
    3. minni hluti getur ekki stutt frumvarp sem leggur til svo opna heimild til stuðnings við einkarekið fyrirtæki á samkeppnismarkaði. Það er ábyrgð þingsins að tryggja að fjárheimildir til sértækra úrræða séu skýrar og skilyrtar. Þessi fjárheimild uppfyllir ekki þær kröfur.

Alþingi, 4. september 2020.

Inga Sæland.